Ferill 91. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 91 . mál.


Nd.

94. Frumvarp til laga



um tímabundna lækkun tolls af bensíni.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990.)



1. gr.


     Fjármálaráðherra er heimilt að lækka toll á bensíni sem flokkast í tnr. 2710.0012 og 2710.0019 í viðauka I við tollalög nr. 55/1987, með áorðnum breytingum, úr 50% í allt að 30%.
     Jafnframt er fjármálaráðherra heimilt að ákveða að lækkun tolls skuli gilda frá 1. október 1990.

2. gr.


     Lög þessi taka gildi þegar í stað og skulu gilda til 31. desember 1990.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í bréfi, sem fjármálaráðherra ritaði verðlagsráði 5. okt. sl., skýrði hann frá því að hann mundi beita sér fyrir breytingu á tollalögum þannig að hlutur ríkisins af aðflutningsgjöldum og virðisaukaskatti hækki ekki í krónutölu frá því sem var við síðustu verðlagningu bensíns. Í fylgiskjali með frumvarpi þessu er bréf fjármálaráðherra til verðlagsráðs birt.
    Þessi ákvörðun fjármálaráðherra og ríkisstjórnarinnar er tekin í samráði við helstu samtök launafólks og samtök atvinnurekenda og er ætlað að styrkja það samkomulag um kjaramál sem kennt er við „þjóðarsátt“.
    Verði frumvarp þetta að lögum er gert ráð fyrir að þau gildi til áramóta en ætla má að heimsmarkaðsverð á olíu lækki til muna á þeim tíma frá því háa verði sem spákaupmennska í tengslum við Persaflóadeiluna hefur nú leitt til. Frumvarp þetta er lagt fram vegna óvissunnar í olíumálum á heimsmarkaði um þessar mundir. Samkvæmt gildandi reglum er veittur gjaldfrestur á innflutningsgjöldum af bensíni og er því lagt til í frumvarpinu að heimildin um tímabundna tollalækkun verði afturvirk frá 1. október. Gert er ráð fyrir að heimildin gildi til 31. desember 1990.
    Tollur af bensíni er nú 50% en að samþykktu þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að heimilt verði að lækka hann í um 30 35%. Þetta mun hafa í för með sér um 50 milljóna króna tekjutap á mánuði fyrir ríkissjóð þrátt fyrir hærri tekjur af bensíngjaldi og virðisaukaskatti vegna hærra innkaupsverðs.
    Fulltrúar ASÍ, BSRB og VSÍ hafa að undanförnu rætt við ríkisstjórnina og fjármálaráðuneytið um þessi mál. Þeim viðræðum til grundvallar hefur legið mat ráðuneytisins á áhrifum hærra bensínverðs á verðlag og afkomu ríkissjóðs. Aðilar hafa verið sammála um að varanleg hækkun á bensínverði hafi veruleg áhrif á öllum sviðum efnahagslífsins, þar á meðal valda tekjuskerðingu hjá ríkissjóði.
    Jafnframt er rétt að benda á að hagfræðingar og alþjóðlegar hagstofnanir hafa ítrekað varað við því að gripið sé til opinberra aðgerða í því skyni að greiða niður til langs tíma hækkun olíuverðs til neytenda. Þessi sjónarmið komu m.a. fram í máli fulltrúa á ársfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins nýverið. Í samþykktum ársfundarins segir m.a. að „tilraunir til að halda niðri olíuverði í einstökum ríkjum með niðurgreiðslum eða verðlagshöftum, eða að bæta upp hærra olíuverð með krónutöluhækkunum í kaupi“ muni „aðeins efla verðbólgutilhneigingar“ í hagkerfi hvers ríkis og verða til þess að síðar meir yrði þörf á „harðneskjulegri aðgerðum í peninga - og skattamálum“ en ella.


Fylgiskjal.

Bréf fjármálaráðherra til verðlagsráðs.


(5. okt. 1990.)


    Að undanförnu hafa aðilar vinnumarkaðarins átt í viðræðum við fulltrúa ríkisstjórnarinnar og fjármálaráðuneytis um verðlagningu á bensíni og áhrif verðhækkunar á efnahagsjafnvægi í landinu. Til grundvallar í þessum umræðum hefur legið mat ráðuneytisins á áhrifum hærra bensínverðs á verðlag og afkomu ríkissjóðs. Aðilar eru sammála um að varanleg hækkun á olíuverði geti valdið tekjuskerðingu hjá ríkissjóði líkt og á öðrum sviðum efnahagslífsins.
    Vegna óvissunnar í olíumálum á heimsmarkaði um þessar mundir hefur fjármálaráðherra fallist á að leggja fyrir Alþingi frumvarp um tímabundna lækkun á bensíntollum. Jafnframt er rétt að hafa í huga að ítrekað hefur verið varað við því að gripið sé til opinberra aðgerða í því skyni að greiða niður um lengri tíma hækkun olíuverðs til neytenda. Þessi sjónarmið komu fram í máli fjármálaráðherra og annarra fulltrúa á ársfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins nýverið og í samþykktum ársfundarins.
    Ríkisstjórnin fjallaði um málið á fundi sínum 4. október og lýsir sig reiðubúna til að veita fjármálaráðherra heimild til þess að lækka álagningu innflutningstolla á bensín tímabundið.
    Með bréfi þessu staðfestir fjármálaráðherra, að hann mun beita sér fyrir nauðsynlegum breytingum á tollalögum þannig, að hlutur ríkisins af tollum og virðisaukaskatti af innflutningsverði á bensíni hækki ekki frá því sem gilti til 1. október. Þessi ákvörðun ein sér rýrir tekjur ríkissjóðs af bensíni um 50 m.kr. á mánuði. Ákvörðunin er tekin í trausti þess að hækkun heimsmarkaðsverðs á olíu haldist óbreytt út þetta ár komi ekki til frekari hækkunar á olíuverði. Gert er ráð fyrir að þessi lagaheimild falli úr gildi 31. desember 1990.
    

Ólafur Ragnar Grímsson.